Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Að strúta sið

    15/04/2008

    Við framsóknarmenn vöruðum strax í sumar og haust ríkisstjórnarflokkana við þeirri þenslu sem þeir sjálfir blésu upp m.a. vegna mikillar útgjaldaaukningar í fjárlögum og neikvæðrar þróunar á erlendum fjármagnsmörkuðum. Formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, benti ríkisstjórninni ítrekað á að "óveðursskýin hrönnuðust upp" í efnahagsmálunum eins og hann þá orðaði það. Aðrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa einnig margoft varað við þróun efnahagsmála. Ríkisstjórnin hlustaði hinsvegar ekki á neinar viðvörunarbjöllur og aðhafðist ekkert. Ríkisstjórnin stakk höfðinu í sandinn að strúta sið. Síðan hefur öll þróun farið á verri veg illu heilli. Spá framsóknarmanna rættist í megin dráttum og viðvörunarorðin sem féllu á síðasta ári áttu öll rétt á sér. Framsóknarmenn telja að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við á nokkurn hátt í samræmi við tilefnið. Meðan hvert áfallið rekur annað heldur ríkisstjórnin að sér höndunum. Skortur á viðbrögðum hennar hefur ekki verið í neinu samræmi við horfur í efnahagsmálunum og samspil við peningamálastjórn Seðlabankans hefur ekkert verið.

    Spá um lækkandi fasteignaverð
    Nýjustu fréttir af neikvæðri stöðu efnahagslífsins er svört spá um þróun á íbúðamarkaði. Seðlabanki Íslands spáir því nú að framundan sé 30% lækkun á fasteignaverði. Formaður og varaformaður Félags fasteignasala, þær Ingibjörg Þórðardóttir og Halla Unnur Helgadóttir, kalla spá Seðlabankans reyndar hræðsluáróður í opinberri blaðagrein um síðustu helgi og óska eftir ábyrgari greiningu. Ljóst er að ef spá Seðlabankans gengur eftir mun fjöldi fjölskyldna sjá sparifé sitt brenna upp og verða að engu. Þar að auki bætist við lamandi óvissa um hvar fjölskyldan verður niðurkomin í framtíðinni.

    Íbúðalánasjóður yfirtaki lán
    Í ljósi þess hve efnahagslíf Íslendinga er í mikilli kreppu og þess að allt frumkvæði vantar í ríkisstjórnina hafa framsóknarmenn lagt fram beinharðar tillögur um aðgerðir sem munu stuðla að því að fjölskyldurnar og atvinnulífið standi efnahagserfiðleikana frekar af sér. Hvað fjármálakerfi sjálft varðar leggjum við til í fyrsta lagi að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans til að draga úr þeirri óvissu sem er uppi um greiðslugetu fjármálakerfis landsmanna. Fyrir þessu höfum við talað í nokkurn tíma. Í annan stað að yfirtaka Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum bankanna verði til reiðu á lánum sem eru undir tilteknum fjárhæðarmörkum og þannig verði með félagslegum hætti komið að vanda tekjulægri hópa í samfélaginu. Því verði miðað við markaðsvirði eigna, en ekki brunabótamat eins og nú er og af þeim sökum þarf að hækka þak hámarkslána. Með yfirtöku á húsnæðislánum bankanna er létt af þeim að þurfa að endurfjármagna lánin á þeim afarkjörum sem þeir búa við.

    Ríkisstjórnin vakni
    Í þriðja lagi þarf að endurskoða og íhuga breytingar á peningamálastefnu Seðlabankans þannig að vægi fjármálastöðugleika í markmiðssetningu bankans verði aukið, samhliða því sem horft verði til stöðugleika í verðalagsmálum. Auk þessa teljum við að endurskoða þurfi forsendur fjárlaga, fella á brott sértæka neysluskatta s.s. álögur á eldsneyti og virðisaukaskatt á matvæli auk stimpilgjalda. Einnig þarf að efla verðlags- og verðmerkingareftirlit, auk þess að styrkja mikilvægar stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið. Áfram þarf að vinna að undirbúningi stórframkvæmda þannig að hægt verði að ráðast í þær með skömmum fyrirvara þegar aðstæður skapast í efnahagslífinu og hvetja þarf til almenns sparnaðar með skattalegum aðgerðum. Að mati okkar framsóknarmanna verður ríkisstjórnin að vakna hið allra fyrsta og koma fram með aðgerðir sem miðast annars vegar við að styrkja fjármálakerfið og hins vegar að draga sem mest úr skaðvænlegum afleiðingum fyrirsjáanlegrar efnahagskreppu. Ríkisstjórnin getur ekki lengur hagað sér eins og sofandi strútur.