Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Lýðræðisleg sáttaleið

    06/05/2008

    Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hélt athyglisverða ræðu á miðstjórnarfundi flokksins síðastliðinn laugardag. Þar tók hann m.a. fyrir hugleiðingar sínar um evrópumál. Þær hugleiðingar urðu meginuppistaðan í ályktun sama fundar sem samþykkt var einróma. Framsóknarflokkurinn hefur nú tekið frumkvæði í hvernig leiða eigi fram þjóðarviljann um ESB, þ.e. hvort Ísland eigi að stefna að ESB aðild eða ekki. Framsóknarmenn telja að lýðræðislegasta leiðin sé sú að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin eigi að veita stjórnvöldum umboð(heimild) til að hefja samningaviðræður við ESB um hugsanlega aðild. Kalla má slíka þjóðaratkvaðagreiðslu "þjóðaratkvæðagreiðslu 1, umboðsatkvæðagreiðslu". Fari svo að þjóðin veiti slíkt umboð, þá færu stjórnvöld í samningaviðræður við ESB um hugsanlega aðild. Niðurstaða þeirra samningaviðræða yrði síðan lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þjóðin gæti þá hafnað eða samþykkt aðild Íslands að ESB. Seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna má kalla "þjóðaratkvæðagreiðslu 2, aðildaratkvæðagreiðslu". Kalla má þessa aðferð við að ná fram vija þjóðarinnar "tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu" til hægðarauka, en taka það skýrt fram í leiðinni að einungis yrði um fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna að ræða ef þjóðin myndi í henni hafna því að veita stjórnvöldum umboð til samningaviðræðna.

    Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla
    Í ályktun miðstjórnarfundarins segir" Útfærsla á þjóðaratkvæðagreiðslum verði skoðuð frekar á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins að undangenginni umræðu um Evrópumál sem framkvæmdastjórn standi fyrir". Í þeirri útfærslu þarf t.d. að skoða atriði er lúta að þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á að setja lágmarksskilyrði um þátttöku atkvæðisbærra manna í þeim kosningum? Hversu afgerandi þarf niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu að vera? Á einfaldur meirihluti að ráða eða á að gera kröfu um aukinn meirihluta? Allar þessar spurningar eru flóknar og því eðlilegt að skoða málin vel áður en þeim er svarað. Einnig þarf að útfæra tímasetningar. Hvenær er t.d. eðlilegt að atkvæðagreiðsla 1, umboðsatkvæðagreiðslan, fari fram? Fáist umboð til samningaviðræðna væri eðlilegt að seinni atkvæðagreiðslan, atkvæðagreiðsla 2, aðildaratkvæðagreiðslan, færi fram fljótlega í kjölfar niðurstöðu samingaviðræðna. Að mínu mati er nauðsynlegt að setja lög um báðar atkvæðagreiðslurnar þ.e. eftir hvaða reglum þær eigi að fara fram. Verði veitt umboð til aðilarviðræðna er líka mikilvægt að áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu 2 kemur verði búið að breyta stjórnarskrá þ.a. í stjórnarskrá verði skýrt kveðið á um að tilteknar náttúruauðlindir verði í sameign þjóðarinnar í anda þess frumvarps sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fyrir Alþingi.

    Séríslensk sáttaleið
    Að mínu mati væri ekki nauðsynlegt að setja reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu 1, umboðsatkvæðagreiðsluna, í stjórnarskrá vegna eðlis hennar, heldur væri réttara að setja um hana sérlög. Í þessu sambandi er eðlilegt að skoða hvernig aðrar þjóðir hafa farið að. Í Noregi voru sett sérlög um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi mögulega aðild að ESB þar sem hvorki voru gerðar kröfur um tiltekna lágmarksþátttöku né aukinn meirihluta. Niðurstöður þeirra kosninga voru ekki lagalega bindandi heldur ráðgefandi. Samskonar tilhögun var varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð og Finnlandi um aðild að ESB. Hér skal tekið fram að þessi norrænu ríki fóru ekki þá leið sem framsóknarmenn leggja til, þ.e. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi var ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu 1,heldur einungis beint í þjóðaratkvæðagreiðslu 2 , aðildaratkvæðagreiðslu. Framsóknarleiðin er því séríslensk sáttaleið. Í dönsku stjórnarskránni er kveðið á um að ef lagafrumvarp feli í sér valdaframsal til fjölþjóðlegra stofnana á grundvelli alþjóðasamnings, þá þurfi frumvarpið að hljóta samþykki 5/6 hluta þingmanna. Hljóti frumvarp ekki slíkan stuðning, en nýtur engu að síður stuðnings meirihluta þingmanna, er hægt að bera það undir þjóðaratkvæði. Af framansögðu má sjá að Framsóknarflokkurinn hefur fyrstur flokka lagt fram lýðræðislega sáttaleið til að fá fram vilja þjóðarinnar um hver staða okkar í Evrópu eigi að vera.