Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Frelsisofstækið og forvarnir

    24/06/2008

    Frelsisofstækið og forvarnir

    Í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 þann 16. júní s.l. kom fram að samkvæmt rannsókn mætti leiða líkur að því að dregið hefði um 21% úr tíðni hjartaþræðinga hjá karlmönnum, sem reykja ekki, vegna alvarlegra kransæðasjúkdóma í kjölfar reykingabanns á skemmtistöðum. Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og einn þeirra sem að rannsókninni stóð, sagði niðurstöðuna vera í takt við erlendar niðurstöður um sama tilefni. Sé þetta rétt er ljóst að bara í hjartaþræðingum höfum við sem studdum þetta mál sparað ríkinu gífurlega fjármuni og stytt biðlista í hjartaþræðingum verulega. Þar að auki hafa lífsgæði fjölda fólks aukist til muna.

    Hver vill reykinn aftur inn?
    Fyrir þremur árum hafði ég forystu um að flytja umdeilt frumvarp á Alþingi um reykleysi á veitinga- og skemmtistöðum. Meðflutningsmenn voru úr Framsóknarflokknum, Samfylkingunni og Vinstri grænum, en enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins né Frjálslyndra vildi þá vera með á málinu. Síðar var málið endurflutt sem ríkisstjórnarmál og urðu áfram talsverðar deilur um það. Höfðu nokkrir þingmenn sig mest í frammi í andstöðunni, þeir Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Björgvin Sigurðsson. Sigurður Kári var fjarstaddur við lokaatkvæðagreiðslu málsins á Alþingi en Birgir og Björgvin greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Mótrök sem færð voru fram á opinberum vettvangi voru t.d. þau að með frumvarpinu væri gerð árás á frelsi einstaklinga, frumvarpið sýndi óásættanlega og ákafa forræðishyggju og að ekki væri búið að sanna nægjanlega að óbeinar reykingar væru skaðlegar. Tóbaksiðnaðurinn fylgdist einnig rækilega með málinu og mættu t.d. fulltrúar tóbaksheildsala á fund hjá Sambandi ungra Sjálfstæðismanna þar sem ég og fleiri rökræddum frumvarpið. Hagsmunaaðilar í veitingarekstri s.s. stéttarfélagið Efling, Matvæla-og veitingasamband Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar lögðu mikilvægt lóð á vogarskálarnar og studdu málið af einurð. Að lokum fór svo, eftir að þáverandi ríkisstjórn endurflutti málið, að þingmenn úr öllum flokkum samþykktu reykleysi á veitinga- og skemmtistöðum. Í dag dettur engum á Alþingi í hug að snúa tilbaka til fortíðar og heimila aftur reykingar á skemmtistöðum.

    Áfengislausar matvöruverslanir
    Nokkrir þingmenn s.s. heilbrigðisráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðarsson og Sigurður Kári Kristjánsson eru á þeirri skoðun að mikilvægt sé að hefja sölu áfengis í matvöruverslunum hið fyrsta. Í þessu máli hefur afstaða framsóknarmanna byggst á forvarnarsjónarmiðum og í ályktun flokksþings 2007 segir í kaflanum um forvarnir "Brýnt er að áfengi verði ekki selt í matvöruverslunum". Við Íslendingar höfum hingað til ekki talið að áfengi sé eins og hver önnur verslunarvara og höfum selt áfengi með ýmsum takmörkunum, s. s. með auglýsingabanni og í ríkisreknum sérverslunum, enda sýna rannsóknir að áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak. Hin seinni ár höfum við Íslendingar verið að ná mjög góðum árangri í forvörnum meðal barna og unglinga eins og alþjóðleg rannsókn sem unnin var af Lýðheilsustöð og Háskólanum á Akureyri sýndi fyrir stuttu. Sænska lýðheilsustöðin hefur komist að þeirri niðurstöðu í kjölfar rannsókna að það að færa áfengissöluna í verslanir muni auka neysluna um 29%. Vekur afstaða heilbrigðisráðherra furðu því samkvæmt heilbrigðisáætlun, sem allir þingmenn samþykktu, var sett það markmið að árið 2010 yrði árleg neysla áfengis á Íslandi komin niður í 5 lítrar per íbúa 15 ára og eldri. Í dag erum við á hraðri leið frá settu marki og innbyrðum árlega 7,2 lítra á hvern íbúa 15 ára og eldri. Sú gjörð að hefja sölu áfengis í matvöruverslunum mun ekki færa okkur nær þessu heilbrigðismarki né bæta forvarnir gagnvart börnum og unglingum. Heilbrigðisráðherra verður því að láta af öllum stuðningi við að koma áfengi í matvöruverslanir og ætti í stað þess beita sér af alefli að forvörnum á þessu sviði.