Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Þjóðarviljinn leiddur fram

  24/06/2008

  Þjóðarviljinn leiddur fram

  Framsóknarmenn hafa rætt kosti og galla Evrópusambandsaðildar um árabil. Framsóknarflokkurinn tók t.d. það frumkvæði fyrstur allra flokka að skoða sérstaklega hver samningsamarkmið Íslendinga ættu að vera ef til aðildarumsóknar kemur. Á síðustu misserum hefur átt sér stað talsverð umræða um þá grundvallarspurningu hvort Ísland ætti að gerast aðili að ESB eða ekki. Umræðan hefur m.a. spunnist um efnahagskreppuna sem herjar á og hvort okkur væri betur borgið ef hér væri evra í stað íslensku krónunnar. Hafa skoðanakannanir sýnt að áhugi almennings á evrópusambandsaðild hefur farið heldur vaxandi og einnig hafa samtök launþega og atvinnufyrirtækja fært rök fyrir nánara evrópusamstarfi. Við þessar aðstæður er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir leiti leiða til að efla umræðuna um hvernig evrópusamstarfi okkar Íslendinga skuli háttað í framtíðinni. Eigum við að byggja áfram á EES-samningnum eða ganga í ESB með kosti þess og göllum? Fyrir skömmu ályktaði miðstjórn Framsóknarflokksins um hvernig leiða mætti fram þjóðarviljann til málsins á lýðræðislegan, nærgætinn og varfærinn hátt.


  Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla
  Framsóknarmenn telja að lýðræðislegasta leiðin sé sú að fram fari svokölluð tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan yrði þá um hvort þjóðin ætti að veita stjórnvöldum umboð eða heimild til að hefja samningaviðræður við ESB um hugsanlega aðild. Færi svo að þjóðin segði já, og veitti slíkt umboð, þá færu stjórnvöld í samningaviðræður við ESB um hugsanlega aðild. Niðurstaða þeirra samningaviðræða yrði síðan lögð fyrir aðra, eða seinni þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þjóðin gæti þá hafnað eða samþykkt aðild Íslands að ESB. Höfum við viljað kalla þessa aðferð við að ná fram vilja þjóðarinnar "tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu" til hægðarauka og taka það skýrt fram í leiðinni að einungis yrði um fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna að ræða ef þjóðin myndi í henni segja nei og þannig hafna því að veita stjórnvöldum umboð til samningaviðræðna.

  Undirbúa þarf reglur
  Á miðstjórnarfundi framsóknarmanna var einnig rætt um hvernig útfæra mætti þjóðaratkvæðagreiðslurnar og tímasetja þær(eða hana ef ein fer fram). Mun sú umræða halda áfram og verða tekin fyrir á komandi flokksþingi. Til dæmis þarf að setja lög sem taka á sérstökum atriðum er lúta að þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunum. Á að setja lágmarksskilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hversu afgerandi þarf niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu að vera? Á einfaldur meirihluti að ráða eða á að gera kröfu um aukinn meirihluta o.s.fr.? Einnig myndi það styrkja samningsstöðu okkar að breyta stjórnarskránni þ.a. í henni verði skýrt kveðið á um að tilteknar náttúruauðlindir verði í sameign þjóðarinnar í anda þess frumvarps sem Framsóknarflokkurinn lagði fyrir Alþingi í vetur.

  Leiðir norrænna ríkja
  Á hinum Norðurlöndunum er nokkur reynsla af undirbúningi og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu sviði. Norðmenn hafa tvívegis hafnað ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í Noregi voru sett sérlög um þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem hvorki voru gerðar kröfur um tiltekna lágmarksþátttöku né aukinn meirihluta. Niðurstöður þeirra kosninga voru ekki lagalega bindandi heldur ráðgefandi. Samskonar tilhögun var varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð og Finnlandi um aðild að ESB en í báðum þessum löndum var aðildin samþykkt. Þessi norrænu ríki fóru ekki þá leið sem framsóknarmenn leggja til, þ.e. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi var ekki farið í umboðsþjóðaratkvæðagreiðslu, heldur einungis beint í aðildarþjóðaratkvæðagreiðslu. Þótt ekkert hinna Norðurlandanna hefur farið þá leið, að bjóða upp a tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlega aðild að ESB, teljum við eigi að síður að hún sé sú réttasta fyrir okkur að fara. Þar sem Framsóknarflokkurinn og bæði leiðandi stjórnmálamenn innan Samfylkingarinnar og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa talað jákvætt um þessa tillögu verður að teljast líklegt að um hana gæti skapast þokkaleg samstaða.