Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Hvað nú Ömmi?

    05/02/2009

    Fyrir stuttu var haldinn um 1800 manna borgarafundur í Íþróttahúsinu við Strandgötu undir heitinu "Stöndum vörð um St. Jósefsspítala". Fundurinn var haldinn í kjölfar ákvörðunar þáverandi heilbrigðisráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, um að loka spítalanum, færa þjónustuna á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og á Landsspítalann og koma upp öldrunarþjónustu þess í stað. Ákvörðunin var tekin í miklum flýti og án samráðs við hagsmunaaðila. Þingmenn heyrðu fyrst af henni í fjölmiðlum og Hafnarfjarðarbær var ekki hafður með í ráðum. Á borgarafundinum reyndi ráðherra án árangurs að færa rök fyrir ákvörðun sinni.

    Lífsgæði
    Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, hefur einnig opinberlega reynt að réttlæta lokun með þeim rökum að húsnæði spítalans sé illa farið. Í þar síðustu viku skoðaði ég spítalann í fylgd Dórotheu Sigurjónsdóttur, hjúkrunarstjóra og sá þá að slíkar yfirlýsingar eru úr öllu samhengi. Aðkallandi er að klæða gafl í göngudeildareiningunni en slíkt viðhald er eðlilegur hluti af rekstri stofnana. Bæði á borgarafundinum og í viðræðum við starfsfólk skurðdeildar spítalans komu fram mikilvægar upplýsingar um starfsemi hans. Til dæmis um s.k. grindarbotnsteymi sem sérhæfir sig í meðferð á grindarbotnsvandamálum kvenna. Teymið er það eina sinna tegundar í landinu og hefur bætt lífsgæði fjölmargra kvenna.

    Gegnheil samstaða
    Hafnfirðingar hafa staðið vörð um spítalann bæði árið 1991 og nú árið 2009 með undirskriftasöfnun. Hefur Bandalag kvenna í Hafnarfirði(BKH) að öðrum ólöstuðum verið í forystu varðstöðunnar eins og fram kom í góðri ræðu Kristínar Gunnbjörnsdóttur, formanns BKH, á borgarafundinum. Mörg félög í Hafnarfirði hafa ásamt félögum allra stjórnmálaflokka í bænum ályktað gegn ákvörðun um lokun St. Jósefsspítala. Samstaða Hafnfirðinga í þessu máli er því gegnheil. Þann 14. janúar s.l. bauð aðgerðarhópur Stöndum vörð um St. Jósefsspítala þingmönnum Suðvesturkjördæmis til fundar um lokunaráform ráðherra. Á þeim fundi mátti heyra að nokkrir þingmenn höfðu efasemdir um réttmæti ákvörðunar ráðherra. Ögmundur Jónasson, nýr heilbrigðisráðherra, sótti fundinn og þekkir því ágætlega til málsins. Af þeim sökum er því rétt að spyrja núna Hvað nú Ömmi?