Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Súlustaðir

    21/03/2009

    Nú í mars var tekið fyrir á Alþingi frumvarp sem ég flyt ásamt Árna Páli Árnasyni, Atla Gíslasyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur og Þuríði Backman. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og fjallar um svokallaða súlustaði. Í frumvarpinu er lagt til að fella á brott undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum. Eftir stendur þá fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Þegar Alþingi fór yfir sama mál í fyrra, sem Kolbrún Halldórsdóttir og fleiri þingmenn fluttu þá, bárust því níu umsagnir.

    Umsagnir jákvæðar

    Fimm umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við efni frumvarpsins, þ.e. Alþjóðahús, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaathvarfið og Rauði kross Íslands. Félag íslenskra stórkaupmanna, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið tóku ekki afstöðu og Viðskiptaráð gerði ekki athugasemdir. Þeir fimm umsagnaraðilar sem tóku afstöðu og tjáðu sig lýstu þannig allir yfir stuðningi við efni frumvarpsins. Málefni súlustaða voru fyrir nokkru í fjölmiðlum í tengslum við leyfisveitingar. Þá lagðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem er lögboðinn umsagnaraðili um rekstrarleyfi, gegn því að leyfi yrði veitt með ýmsum rökum og lagðist því leyfisveitandi(sýslumaður) gegn því að veita leyfi. Sú ákvörðun var kærð til dómsmálaráðherra sem felldi úrskurð í málinu í maí á síðasta ári. Vegna annmarka á efnistökum var synjun um leyfisveitingu felld úr gildi. Málinu lyktaði með því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út nýja umsögn þar sem í ljósi úrskurðar dómsmálaráðuneytisins þótti ekki annað fært en að mæla með því að leyfi yrði veitt.

    Þverpólitísk samstaða borgarráðs

    Á sama tíma hafði borgarráð Reykjavíkurborgar til umfjöllunar endurnýjuð leyfi fyrir tvo staði sem óskuðu báðir eftir að fá heimild til að bjóða upp á nektardans. Ráðið hafði áður samþykkt að mæla ekki með því að slík leyfi yrðu veitt. Þegar úrskurður dómsmálaráðuneytisins lá fyrir þótti borgarráði hins vegar ekki fært annað en að veita jákvæða umsögn og gerði það á fundi sínum í águst í fyrra með bókun. Í bókuninni kemur m.a. fram  Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu og því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða. Frumvarpið, sem þingmenn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna, flytja nú er einmitt til þess fallið að taka af allan vafa. Verði það samþykkt er sú löggjöf sem eftir stendur skýr. Undanþáguheimildin hyrfi og nektarsýningarnar yrðu þar með af lagðar.