Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Steingrím Hermannsson

    12/02/2010


    Með Steingrími er fallinn frá einn ástsælasti leiðtogi þjóðarinnar. Það er að bera í bakkafullan lækinn að telja upp öll þau afrek sem honum auðnaðist að vinna á stjórnmálatíð sinni, bæði sem leiðtogi þjóðarinnar og Framsóknarflokksins. Þó vil ég sérstaklega tiltaka þátt hans í að koma á þjóðarsáttinni svokölluðu sem lagði grunn að löngu og farsælu velferðarskeiði á Íslandi. Margir hafa viljað eigna sér hlut í þessari þjóðarsátt, en hlutur Steingríms í henni var afgerandi og skipti öllu máli. Það var einmitt einkennandi fyrir Steingrím hversu auðvelt hann átti með að sætta ólík sjónarmið. Manngildi ofar auðgildi voru einkennisorð Steingríms og hann lagði mikla áherslu á jöfnuð. Steingrími kynntist ég hratt og örugglega ef svo má að orði komast. Það var árið 1990 þegar ég varð bæði bæjarfulltrúi og stuttu síðar formaður Sambands ungra framsóknarmanna(SUF). Þá var Steingrímur formaður flokksins og því tilhlýðilegt að nýr formaður SUF færi á öll kjördæmisþing framsóknarmanna í fylgd formannsins. Margar slíkar ferðir voru eftirminnilegar, s. s. þegar formaðurinn ók okkur austur fyrir fjall í blindaþoku til að ná á kjördæmisþing á Suðurlandi. Ekki sáust handaskil í þokunni, en Steingrímur var einbeittur og kom okkur á þingið á réttum tíma og heilum. Á þessu þingum hélt hann stórsnjallar ræður og furðaði ég mig ávallt á því hvernig hann gat haldið uppi dampi í löngum, öflugum og innihaldsríkum ræðum, án þess að þurfa að líta á blað í nokkurt einasta skipti. Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að taka við kyndlinum af Steingrími fyrir hönd flokksins í kjördæminu. Steingrímur var ávallt í góðum tengslum við flokksmenn þótt hann hefði látið af formennsku og lét ekki sitt eftir liggja í kosningabaráttu eða öðrum stórviðburðum í flokksstarfinu. Nú síðast í alþingiskosningunum í fyrravor var hann á framboðslista okkar, í heiðurssæti og mætti galvaskur til leiks þrátt fyrir veikindi. Veitti hann okkur ávallt innblástur með nærveru sinni. Steingrímur var mjög stoltur þegar Guðmundur, sonur hans, tók sæti á Alþingi fyrir hönd framsóknarmanna. Orðatiltækið, sjaldan fellur eplið langt frá eikinni, á vel við um þá feðga, enda minnir Guðmundur oft ótrúlega mikið á Steingrím á sínum yngri árum. Steingrímur var þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góðan maka, hana Eddu, sem stóð ávallt við hlið hans í blíðu og stríðu. Virðing þeirra beggja hvort fyrir öðru fór ekki fram hjá neinum sem til þeirra þekktu. Þau voru höfðingjar heim að sækja og voru ávallt reiðubúin að taka á móti flokksmönnum á heimili sínu. Nú þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka Steingrími fyrir að hafa gefið svo mikið af sér fyrir almannaheill. Hann lét aldrei deigan síga og unni þjóð sinni og landi svo heitt að störf í þjóðarþágu mótuðu allt hans lífshlaup. Ég votta Eddu, börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum mína dýpstu samúð. Guð blessi minningu Steingríms Hermannssonar.