Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Svar Björgvins G. Sigurðssonar


    20/08/2009

    136. löggjafarþing 2008-2009.
    Þskj. 503 - 227. mál.

    Svar


    viðskiptaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um tvö bréf ráðherrans til breska fjármálaráðuneytisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hljóða bréf ráðherrans sem send voru breska fjármálaráðuneytinu annars vegar um miðjan ágúst og hins vegar 5. október sl.?

    Bréf það sem sent var úr viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell í HM Treasury 20. ágúst 2008 hljóðar svo:
    "Vísað er til viðræðna okkar hinn 31. júlí og bréfs yðar frá 7. ágúst 2008, þar sem þér lögðuð fram nokkrar spurningar varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Vísað er jafnframt til tölvupósts okkar frá 14. ágúst með athugasemdum okkar um þessi mál, önnur en spurningar nr. 2 og 5. Hér á eftir fara svör okkar við þeim tveimur spurningum sem eftir standa.
    Ef svo vildi til, sem er ólíklegt að okkar mati, að stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tækist ekki að afla nauðsynlegs fjármagns á fjármálamarkaði, getum við fullvissað ykkur um að ríkisstjórn Íslands myndi grípa til allra þeirra ráða sem ábyrg ríkisstjórn myndi grípa til í slíkri stöðu, þ.m.t. aðstoða sjóðinn við að afla þess fjár, sem þörf væri á, þannig að sjóðurinn gæti staðið skil á lágmarksgreiðslum.
    Ennfremur viljum við benda á lög um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, sem samþykkt voru árið 1998, m.a. til innleiðingar á tilskipun 94/19/EB um sama efni. Lögin eru nú til endurskoðunar í viðskiptaráðuneytinu í ljósi þróunar á sviði fjármálaviðskipta á undanförnum árum. Fjármögnun og verklagsreglur eru meðal þeirra þátta sem til athugunar eru. Gert er ráð fyrir að frumvarp til laga um þessi mál verði lagt fram á komandi löggjafarþingi, sem hefst í október.
    Á það skal bent að sú staða getur komið upp að fjármálastofnun með trygga eiginfjárstöðu lendi í lausafjárvanda ef mikill fjöldi innstæðueigenda tekur skyndilega út fé sitt af einhverri ástæðu. Í slíku tilviki getur Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, veitt lausafjáraðstoð. Ríkisstjórn Íslands myndi styðja Seðlabankann í þeim aðgerðum. Við slíkar aðstæður kæmi málið aldrei til kasta Tryggingarjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Við undirstrikum að ríkisstjórninni er fullkomlega kunnugt um skuldbindingar sínar skv. EES samningnum að því er varðar Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og mun standa við þær skuldbindingar."

    Bréf það sem sent var úr viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell í HM Treasury 5. október 2008 hljóðar svo:
    "Vísað er til viðræðna yðar við ráðuneytið um síðastliðna helgi.
    Ef þörf krefur mun ríkisstjórn Íslands styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við að afla nauðsynlegs fjár, þannig að sjóðurinn gæti staðið skil á lágmarksgreiðslum ef til þess kæmi að Landsbankinn og útibú hans í Bretlandi kæmust í þrot."