Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Guðbjartur segir þetta í icesave 1 og 2


    26/01/2010

    Hér er atkvæðaskýring Guðbjarts Hannessonar, 28. ágúst 2009 (icesave 1).
    137. löggjafarþing - 59. fundur, 28. ág. 2009.
    ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Guðbjartur Hannesson (Sf):
    Hæstv. forseti. Við erum að taka til lokaafgreiðslu erfitt og þungt mál sem verður vonandi leitt hér til lykta. Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.
    Málið er þungt en krafðist lausnar og niðurstöðu og ég treysti á að sú niðurstaða fáist. Ég vísa öllum ummælum um að einhver blekkingaleikur hafi verið í gangi eða að hér sé einhver feluleikur á ferð út í hafsauga og segi já.


    Hér eru ræður Guðbjarts Hannessonar í lok desember 2009(icesave 2).

    Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, 3. umræða.

    Bráðabirgðaútgáfa.
    ________________________________________
    28. desember 2009

    [14:42]
    Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki svaravert að hv. þingmaður velji að tala um óheiðarleika og ólíkindi og að ég vinni að hagsmunum annarra en íslensku þjóðarinnar. Það eru rök nefnilega í málinu sem voru flutt hér ágætlega áðan, að ég taldi, fyrir því að það séu fyrst og fremst hagsmunir íslensku þjóðarinnar að komast áfram og ljúka þessu máli með sátt og eiga þannig aðgang að lánsfé í framtíðinni og að reyna að klára málið þannig að við séum ekki í eilífum útistöðum við alþjóðasamfélagið. (Gripið fram í.) Varðandi það sem samþykkt var í haust hef ég sagt áður í umræðunni að það var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum að kláru skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Við vissum það nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? (Gripið fram í.)Átti ég að fara að segja (Forseti hringir.) að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því. Því miður brást það.


    29. desember 2009
    [12:17]
    Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):
    Hæstv. forseti. Maður hefur orðið að búa við það í þessu Icesave-máli allt frá upphafi að orð manns eru rangtúlkuð og farið með á afar frjálslegan hátt. Mig langar í tilefni af þeirri ræðu sem hér var flutt að upplýsa hv. þingmann um það að, af því að ég var að tala um að það hefði gerst þegar við gerðum þá skýlausu kröfu að Bretar og Hollendingar yrðu með formlegum hætti að staðfesta fyrirvarana, að það voru ekki formleg samskipti stjórnvalda heldur voru viðræður í fjárlaganefnd og á göngunum þegar við vorum að ganga frá þessu máli. Þegar menn óskuðu eftir því að þessu yrði bætt við varaði ég við því að það yrði gert, og ásamt fleirum, bara í óformlegum viðræðum. Við mátum þá stöðuna þannig að til þess að halda samstöðunni væri það áhættunnar virði að láta reyna á þetta.
    Þau ráð sem ég fékk voru persónuleg frá fólki sem ég treysti afar vel og hafa ekkert með stjórnvöld að gera. Þar áttu í hlut aðilar sem þekktu mjög vel til alþjóðasamninga og bentu mér vinsamlega á að nú hefði ég farið yfir mörkin vegna þess að í alþjóðlegum samningum gætu menn ýmislegt látið yfir sig ganga ef það væri ekki gengið frá því með mjög formlegum hætti. Ef það ætti að staðfestast með skriflegum hætti eins og óskað var eftir væri hætt við því að menn yrðu að segja nei vegna fordæmanna fyrir aðra samninga.
    Ég tel mikilvægt að þessi orð mín séu ekki afvegaleidd eða mistúlkuð þannig að hér hafi átt sér stað einhver formleg samskipti stjórnvalda. Þetta voru viðræður í fjárlaganefnd og í tengslum við afgreiðslu málsins annars vegar og hins vegar persónuleg ráð sem ég fékk frá mönnum sem ég treysti afar vel um það hvernig ég ætti að haga mínu máli. Niðurstaðan varð sú að við afgreiddum þetta með þessum hætti. Ég stóð að því og treysti á að við gætum unnið þessu máli farsælan endi. Það tókst því miður ekki og ég harma það manna mest. Ég vil bara að þetta sé skýrt hér og leiðrétt þannig að það sé ekki verið að afvegaleiða það sem ég sagði.


    [12:21]
    Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa ítrekað ræðu mína. Það sem ég var að reyna að gera í andsvari mínu var að skýra út hvað hefði legið að baki og ég harmaði það að það væri túlkað að þarna væri um einhver leyndarskjöl að ræða eins og gjarnan er notað í umræðunni. (Gripið fram í.) Ég var bara að reyna að skýra það út að ég fékk persónulegar ábendingar. Það voru málsmetandi aðilar, ekki í íslenska stjórnkerfinu heldur erlendis, sem ráðlögðu mér persónulega.
    Ég var líka að tala um, og það á hv. þingmanni að vera kunnugt um, að þegar við vorum að ljúka þessu máli með lögfræðingum sem unnu með okkur textann stóðum við í samningaviðræðum alveg fram undir morgun eða fram eftir miðri nóttu um það hvað ætti að koma inn í textann. Raunar var það eftir að lögfræðingarnir voru farnir þar sem við vorum með síðustu breytingarnar, m.a. um það að ríkisábyrgðin félli niður árið 2024. Við vorum með þennan skýlausa fyrirvara, hann kom inn í textann alveg fram á síðustu stundu.
    Framsóknarflokkurinn var að vísu ekki (Forseti hringir.) aðili að þessum umræðum á þeim tíma en þetta á að vera ljóst og ég vil bara að það sé upplýst að svona gekk þetta fyrir sig. Málið var afgreitt samhljóða út úr fjárlaganefnd og ég hélt auðvitað (Forseti hringir.) þeirri trú og trausti að þetta mundi ganga. En því miður varð það ekki niðurstaðan.