Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Dagbókin á siv.is 6 ára


    14/01/2008

    Dagbókin er 6 ára í dag, en heimasíðan sjálf er eldri því hún fór í loftið í mars árið 1999 fyrir alþingiskosningarnar það ár. Er mér sagt að ég hafi verið með næst fyrstu stjórnmálasíðuna á netinu af þessari gerð, þ.e. næst á eftir Birni Bjarnasyni, ráðherra. Síður okkar Björns eru þó afar ólíkar. Hann skrifar mikinn og beinharðan pólitískan texta en gefur lítið upp um persónulegt líf, meðan ég geri nokkuð af hvoru tveggja.

    Á minni síðu eru líka fjölmargar myndir sem ég tek við hin ýmsu tækifæri og veit ég að þær eru mikið skoðaðar. Núna eru 11.780 myndir á www.siv.is þannig að víst er að á þessu ári fer 12.000 myndin inn í dagbókina. Að meðaltali set ég rúmlega 5 myndir inn á síðuna pr. dag. Stundum færri, stundum mun fleiri. Síðan inniheldur því einn af stærri myndabönkum landsins þar sem hægt er að nota leitarvél til uppflettingar í myndatexta. Veit ég að margir fjölmiðlamenn og aðrir hafa nýtt sér leitarvélina til að freista þess að finna mynd af t.d. einstaklingum sem þeir eru ekki vissir um hverjir eru. Leitarvélin í myndabankanum er notuð á þennan hátt: Fyrst er smellt á Myndir hér efst á svörtu stikunni á heimasíðunni. Síðan er leitarorð sett í leitarvélina sem er ofarlega hægra megin á síðunni og svo smellt á leita. Einfalt og snjallt!


    Dagbókina færi ég til að gefa kjósendum tækifæri á að fylgjast með störfum og lífi stjórnmálamanns sem þeir e.t.v. kusu eða munu kjósa. Þeir sem vilja geta fylgst með manni aðrir sleppa því. Einfalt og snjallt! Fjölskyldan og vinir fylgjast líka, í gegnum dagbókina, reglulega með því sem á dagana drífur.


    Margir spyrja mann hvort ekki þurfi geysilegan aga til að færa dagbók á netinu. Svarið er jú. Hinsvegar komast færslurnar fljótt upp í vana þ. a. maður verður háður því að færa dagbókina. Eiginlega getur maður ekki farið sæll að sofa fyrr en búið er að gera upp daginn á netinu fyrst. Allar greinar sem ég skrifa og pólitískir pistlar eru einnig vistaðir á heimasíðunni. Slíkt fyrirkomulag er bæði gott fyrir mig og aðra. Ég get á skjótvirkan hátt flett upp pistlum og greinum mínu ef á þarf að halda og aðrir geta lesið innihaldið á aðgengilegan hátt hvenær sem er. Það er frábært að halda úti dagbók. Í dagbókinni má sjá hvað alþingismaður nýtir krafta sína í og hvað hann hefur að segja. Ég get nýtt dagbókina í að koma sjónarmiðum á framfæri í sókn og vörn gagnvart almenningi og fjölmiðlamönnum. Það fer mikill tími í bæði textavinnu og myndvinnslu og ég hleypi fólki nálægt mér með því að skrifa einnig um persónulegt líf en ekki einungis beinharðan þurran pólitískan texta. Þrátt fyrir að talsverður tími og kraftur fari í vinnslu dagbókarinnar mun ég halda skrifunum áfram með mikilli ánægju. Í tilefni afmælisins vil ég þakka öllum lesendum hennar.