Siv Friðleifsdóttir

Tími Freyju, tími fjölbreytileikans

08/03/2009

Blogg Salvarar Gissurardóttur: "Það er frábært að vakna upp á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars og sjá að algjör kvennalisti vann í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvestur-kjördæmi, konur urðu þar í fimm efstu sætunum. Þetta hefði glatt móður mína Ástu Hannesdóttur mikið. Móðir mín lést árið 2000. Móðir mín starfaði með framsóknarkvennafélaginu Freyju í Kópavogi. Hún helgaði því félagi alla sína félagsmálakrafta í mörg ár og var þar formaður um skeið. Þess vegna hef ég alltaf fylgst vel með Framsóknarkonum í þessu kjördæmi og meira segja blandað mér í leikinn þegar Freyjumálið svonefnda stóð sem hæst í Kópavogi fyrir fjórum árum. Það mál var atlaga að öllum konum í Framsóknarflokknum og raunar öllu eðlilegu grasrótarstarfi í stjórnmálaflokkum.

Ég blandaði mér þá í málið og skrifaði grein í Fréttablaðið og tók málið líka upp á félagsfundi í mínu félagi í Reykjavík og gagnrýndi harðlega flokksforustu Framsóknarflokksins og einstaka ráðherra fyrir hvernig tekið var á þessu máli. Fyrir það hlaut ég lítið lof, eiginlega uppskar ég langvarandi útskúfun úr öllu starfi í mínu framsóknarfélagi mörg ár. En núna eru tímarnir aðrir í Framsóknarflokknum og ég held að flestir sem stóðu að þessum vinnubrögðum á sinni tíð eða létu þau óátalin hafi horfið úr starfi í Framsóknarflokknum eða séð að þessi vinnubrögð koma öllum illa og gera stjórnmálastarf að skrípaleik.

Hér er til upprifjunar greinin sem ég skrifaði í Fréttablaðið 23. febrúar 2005:
Umsátrið um Freyju í Kópavogi( http://salvor.blog.is/users/7c/salvor/img/freyjumalid-frettabladid-23feb2005.gif?img_id=413808 ).

Það kemur mér raunar ekki á óvart að sjá hversu sterkar konur eru í Suðvestur kjördæmi. Það eru fyrir tvær konur sem eru á þingi og svo hafa Una María og Bryndís Bjarnarson verið mjög áberandi í jafnréttisstarfi, þær hafa báðar verið formenn landsambands Framsóknarkvenna og hafa mikla reynslu. Það er líka í Suðvestur kjördæmi sem ég held að fjölskyldur finni margar hvað mest fyrir kreppunni, þarna eru úthverfin frá Reykjavík, í Kópavogi og Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru barnafjölskyldurnar sem núna eru að sligast af skuldum.

Það munu rúmlega þúsund manns hafa greitt atkvæði og féllu þau svona:

1. Siv Friðleifsdóttir 498 atkvæði

1.-2. sæti Helga Sigrún Harðardóttir 433 atkvæði

1.-3. sæti Una María Óskarsdóttir 394 atkvæði

1.-4. sæti Bryndís Bjarnarson 439 atkvæði

1.-5. sæti Svala Rún Sigurðardóttir 510 atkvæði

Samkvæmt prófkjörsreglum mun þessi sigur í prófkjöri ekki tryggja þessum fimm skeleggu og ágætu konum þessi sæti á lista. Þær eru allar ótrúlega frambærilegar og sterkar konur en Framsóknarflokkurinn er flokkur sem leggur áherslu á fjölbreytni og er flokkur þar sem mikil áhersla er lögð á að listar séu ekki of einsleitir m.a. miðað við kyn. Frambjóðendur vissu allir af þessum prófkjörsreglum, það munu einhverjar konur færast niður vegna þess að það er allt of einsleitur listi sem stillir konum upp i fimm efstu sætunum. Helmingur kjósenda er karlar og listi til alþingiskosninga verður að endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu."